Shetland sheepdog á Íslandi
  • Forsíða
  • Markmið
  • Gagnagrunnur
  • Sýningar
  • Heilbrigði
  • Got / Ræktendur
  • Umhirða
  • Umfjöllun
Feldhirða:
Sheltie er síðhærður hundur með fremur létta feldhirðu. Feldurinn er tvöfaldur, með mjúku, hlýju þeli innst og grófari vindhárum yst. Viðkomu er feldurinn þéttur og fremur stífur (ekki mjúkur). Rakkar eru að jafnaði feldmeiri en tíkur, sérstaklega á makka og á brjósti. Feldurinn þéttist með aldrinum, sérstaklega hjá rökkum. Tíkurnar eru oft með síðari fanir, "buxur" og skott. Sheltie fer úr hárum tvisvar á ári og tíkur meira en rakkar.

Regluleg umhirða eykur vellíðan hundsins, hreinlæti og heilbrigði. Hundar sem ekki eru hirtir, þófna upp, flækjur valda sársauka og geta hamlað hreyfingu. Langar neglur aflaga fætur, eyrnabólga getur grasserað án þess að því sé veitt því athygli og tennur skemmst með tilheyrandi sársauka og sýkingum. 

Óþarfi er að baða Sheltie oft, en regluleg burstun er nauðsynleg, sérstaklega í feldlosi. Nauðsynleg snyrtitæki heimavið eru góð hárskæri, naglaklippur, stálgreiða, slickerbursti og pinnabursti. Einnig er gott að eiga tannsköfu og öflugur blásari er lúxus!

Þegar burstað er í gegnum feldinn er gott að gera það skipulega. Gæta þarf að því að bursta alveg inn að skinni og oft er talað um að "línubursta" hunda með svo þykkan og mikinn feld, ein "lína" burstuð í einu þannig að næsta "lína" leggst ofaná. Flækjur myndast helst í mjúku hárunum við eyrun og stundum í framfótakrikum, ef þar er kominn þæfingur þarf að klippa hann í burtu. Gott er að nota stálgreiðu til að finna flækjur þar sem þær gefa ekki eftir líkt og burstar. Slickerbursti og fíntenntar greiður eru góðar í hárlosi.

Ef sheltie er baðaður, skyldi nota góða hársápu ætlaða hundum (eru með annað PH gildi í húð en menn), helst fyrir stífan feld. Ekki þarf að nota næringu, enda mýkir hún feldinn. Kröftugur feldblásari þurrkar hundinn á skömmum tíma og er mikið þarfaþing í feldlosi. 

Margar hundasnyrtistofur eru starfræktar í dag, sérstaklega á stór-Reykjavíkursvæðinu. Snyrting á 2-3gja mánaða fresti er hæfileg, en klær þarf að klippa á um 6 vikna fresti. Ekki þarf að panta tíma á snyrtistofum fyrir klóaklippingu og margar stofur eru með afsláttarkort í klóaklippingar ef komið er reglulega. Klær eru líka klipptar hjá dýralæknum.


Klipping á klóm:
Klær þarf að klippa reglulega ef hundurinn slítur þeim ekki sjálfur. Vel hreyfðir hundar ná oft að slíta klóm á afturfótum, en klær á framfótum verða oft lengri. Sérstaklega þarf að gæta að úlfaklóm sem liggja hærra á innanverðum fótum. Þær geta vaxið í hring og jafnvel inn í fótinn ef ekki er að gáð.

Góðar klóaklippur er nauðsynlegar, notið frekar minni klippur en stærri. Mælt er með að eiga "blóðstopp" (styptic powder).

Þekkja þarf hvernig nöglin er byggð upp og hversu langt má klippa. Einungis fremsti hlutinn er tekinn, þar sem engar æðar eða taugar liggja. Ef klippt er of langt, finnur hundurinn sársauka og hvekkist svo erfitt getur verið að fá að klippa aftur. Þá getur blætt töluvert og erfitt er að stöðva blæðingu úr nögl. Á flestum hundasnyrtistofum er hægt að kaupa "blóðstopp", duft sem bæði sótthreinsar og stöðvar blæðingu ef klippt er of langt.

Mörgum hundum finnast klóaklippingar stressandi svo það er um að gera að byrja snemma að venja hvolpa við að átt sé við fætur og klær, ein og ein nögl klippt í rólegheitum og verðlaunað fyrir góða hegðun.

Picture
Innan í nöglinni liggur tauga- og blóðrík kvika (​dökkur hluti naglar á mynd). Einungis er tekið fremst af nöglinni, en þess gætt að klippa ekki í kvikuna. Á ljósum nöglum sést kvikan í gegn (bleikleit). Svörtu neglurnar eru erfiðari, en þá gildir að taka nógu lítið í einu og skoða nöglina eftir hvert skipti. Um leið og hvítur blettur sést í miðju "sárinu", er komið að kvikunni og ekki má klippa lengra.
Snyrting á fótum
Fætur þarf að snyrta reglulega, klippa hár sem vaxa á milli þófa og sem safna óhreinindum. 
Ef byrjað er á framfótum, eru hárin á fætinum burstuð, t.d. með slikkerbursta, til að ná úr flækjum og óhreinindum. Því næst er þófasvæði snyrt. Varast skal að fara  með skæri á milli þófanna þar sem svæðið er viðkvæmt, betra er að klemma þófana saman og klippa það sem útaf stendur. Þegar þófarnir eru hreinir og snyrtilegir, eru öll lengri hár ofan á fæti (hár jafnvel veidd upp á milli tánna) klippt niður og snyrt í kringum fót. Að lokum eru lengri hár aftan á og upp fótinn klippt upp að sjötta þófa (carpal pad) sem er staðsettur nokkra sentimetra upp fótinn að aftanverðu.
Texti og myndir: Lilja Dóra
Picture
Ósnyrtir framfætur
Picture
Þessar neglur þarf að klippa! Hárin sem standa út, eru klippt niður að þófa.
Picture
Vel snyrtur fótur. Búið er að klippa neglur, snyrta undir þófum, ofan á og í kringum fótinn. Lengri hár aftan á fæti eru klippt upp að sjötta þófa (carpal pad).

Afturfætur eru snyrtir á sambærilegan hátt og síðari hár aftan á hækilbeini eru jöfnuð og stytt. 
Picture
Ósnyrtur afturfótur
Picture
þegar snyrt hefur verið undir, ofaná og í kringum fótinn, eru lengri hár á hækilbeini jöfnuð og stytt.
Picture
Öll þessi hár undir þófum þarf að klippa burt. Þau safna óhreinindum og það er særandi fyrir hundinn að ganga stöðugt á flækjunni, ekki síst þegar mold, sandur eða snjór safnast í henni.
Picture
Ekki er klippt alveg að fætinum, heldur haldið 1-2 cm "sídd" til að gefa fætinum þykkara yfirbragð.
Picture
Þegar snyrt hefur verið undir þófum, eru hár ofan á fætinum greidd upp og jafnvel veidd upp á milli tánna og klippt alveg niður að fæti.
Picture
Snyrtur afturfótur.
Proudly powered by Weebly
  • Forsíða
  • Markmið
  • Gagnagrunnur
  • Sýningar
  • Heilbrigði
  • Got / Ræktendur
  • Umhirða
  • Umfjöllun